Á náttborðinufimmtudagur, nóvember 02, 2006
 


föstudagur, apríl 11, 2003
 


Ást og pólitík!

Þeir sem eru þegar orðnir leiðir á kosningabaráttunni hér á Íslandi en hafa gaman af slíkum hasar vil ég benda stórskemmtileg bók sem fjallar um kosningarbaráttu Bush og Clinton árið 1992. „All´s fair: Love, War and Running for President“ er eftir Mary Matalin og James Carville en þau voru háttsettir starfmenn í kosningarbaráttu Bush annars vegar og Clinton hins vegar. Þau lýsa á skemmtilegan hátt hvernig svona barátta gengur fyrir sig og segja frá sömu málum og atvikum frá ólíkum sjónarhornum. Ótalmargar bækur hafa verið skrifaðar um forsetakosningar í bandríkjunum en það sem gerir þessa frábrugðna öðrum er að þarna kemur saman fólk sem vann fyrir sitt hvort framboðið og var kærustupar þegar á kosningabaráttunni stóð. Í dag eru þau hjón þrátt fyrir að verulega hafi hitnað undir sambandi þegar baráttan harðnaði.

Eftir fyrra Persaflóastríðið mældist stóri Bush vinsælasti forseti Bandaríkjanna fyrr og síðar og öruggt var talið að hann myndi ná endurkjöri. Helstu leiðtogar demókrataflokksins töldu það óvinnandi veg að fara í framboð gegn honum og það var ástæða þess að nær óþekktur ríkisstjóri frá smáríkinu Arkansa vann prófkjör flokksins. Það voru ekki eingöngu demókratar sem héldu að Bush hefði þessa yfirburði því Kosningabarátta Bush fór seint af stað og var mjög ómarkviss til að byrja með.

Mary Matalin var starfsmaður Republikanaflokksins og í kosningarbaráttunni sá hún um samskipti milli Hvíta Hússins og flokksins. Hennar hlutverk var ekki öfundsvert því milli þessara aðila er jafnan mikil togstreita. Þeir sem stjórna kosningarbaráttunni vilja að forsetinn einbeiti sér að henni og sé fyrst og fremst frambjóðandi á meðan að starfsmenn Hvíta hússins finnst baráttan taka of mikinn tíma frá skyldustörfum forsetans. Þessi togstreita og staða Bush í könnunum var ein helsta ástæða þess að kosningarbarátta Bush fór gekk svo brösulega framan af.

Efnahagurinn, asninn þinn!
Það er allt annað upp á teningnum hjá mótframbjóðandanum. Þrátt fyrir að Clinton væri á þessum tíma ríkisstjóri í Arkansa tileinkaði hann kosningabaráttunni allan sinn tíma og krafta. James Carville var einn af kosningastjórum og hugmyndafræðingum Clinton. Hann stjórnaði hinu fræga „War room“ í Arkansa þaðan sem Clinton framboðið var rekið. Þar hékk skiltið „The economy stupid“ sem var leiðarljós alls málflutnings Clinton í kosningarbráttunni. Fljótlega eftir prófkjör demókrataflokksins fór Clinton að hafa yfirhöndina í flestum skoðanakönnunum og það var munur sem Bush náði aldrei að vinna upp.

Draft dodging, pot smoking, womanizer!
Aðferðafræði Carvilles og félaga var einföld regla í öllum almannatengslum bregðast strax við öllu sem andstæðingurinn segir og gerir, reyna að spinna það sér í hag og láta engu ósvarað. Þrátt fyrir að stuðningsmenn Bush hafi reynt að draga upp mynd af Clinton sem óábyrgum „draft dodging, pot smoking, womanizer“, sem myndi útleggjast sem kvennsamur hassreykingarmaður sem kemur sér undan herskyldu, kom allt fyrir ekki. Carville og aðrir þeir sem unnu að baráttu Clinton voru álitnir kraftaverkamenn eftir kosningarnar enda var sigur á Bush talinn óhugsandi aðeins einu og hálfu ári áður.

Í dag rekur James ráðgjafaskrifstofu sem tekur að sér að reka kosningabaráttu fyrir demókrata. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um stjórnmál og er því sem næst goðsögn innan demókrataflokksins. Mary var lengi með eigin umræðuþátt um stjórnmál en er nú ráðgjafi litla Bush í Hvíta húsinu. Þeir sem fylgjast með spjallþáttum um bandarísk stjórnmál hafa eflaust rekist á þau hjónin rífast eins og hundur og köttur um það sem er efst á baugi í amerísku samfélagi hverju sinni.

Bókin er fáanleg á Amazon


 
Frá Watergate til Monicugate

Blaðamaðurinn Bob Woodward fór, ásamt félaga sínum á dagblaðinu Washington Post Carl Bernstein, fremstur í flokki þeirra sem flettu ofan af Watergate hneykslinu sem varð til þess að Nixon Bandaríkjaforseti sagði af sér embætti. Heimildamaður þeirra, Deep Throat, er mönnum enn ráðgáta þó að ljóst sé að hann kom úr innsta hring starfsmanna Hvíta hússins. Félagarnir Woodward og Bernstein skrifuðu í framhaldi bókina All the President’s men um Watergate hneykslið og samnefnd bíómynd var gerð eftir.

Bob Woodward tekur upp þráðinn í bókinn Shadow: Five Presidents and the Legacy of Watergate þar fjallar hann um hvernig fjölmiðlar hafa orðið aðgangsharðari við forsetaembættið í kjölfar Watergate og hvernig það hefur haft áhrif á embættið. Bókin fjallar um hneykslismál tengd forsetaembættinu frá Ford til Clinton. Allir fimm forsetarnir á þessum tíma lentu í vandræðum eftir að hafa orðið uppvísir að því að ljúga að þjóðinni þó áhugaverðustu málin séu Íran-Contra hneyksli Reagans og fjölmörg hneykslismál Clintons.

Clinton og Starr í aðalhlutverki

Í rauninni fjallar helmingur bókarinnar um Clinton og rannsókn saksóknarans Kenneth Starr. Það er augljóst að Woodward er vel tengdur inn í stjórnkerfi Bandaríkjanna og með fjölmarga Deep Throat á sínum snærum, bæði fólk sem hefur staðið nærri Clinton í Hvíta húsinu og úr herbúðum Starr. Ýmislegt nýtt kemur fram í dagsljósið um eitt stærsta fjölmiðlamál seinni ára.

Bob Woodward dregur ekki upp fagra mynd af Starr og rannsókn hans og telur það mjög neikvætt og að það veiki forsetaembættið ef Bandaríkjaforsetar framtíðarinnar geti átt von á því að slíkir saksóknarar verði skipaðir. Hætt er við því að ef slíkir menn fái ótakmarkað fé og tíma eins raunin var með Starr þá hljóti þeir að finna eitthvað misjafnt.
Það er tvímælalaust hægt að mæla með bókinni Shadow og þá sérstaklega umfjölluninni um Clinton enda er Wooward vel upplýstur um það sem gerðist bak við tjöldin og frásögnin skrifuð eins og spennandi sálfræðitryllir.

Bókin fæst á amazon.com

 
Spilling og samsæri!

Jack Anderson hefur verið einn af áhrifamestu rannsóknarblaðamönnum í Bandaríkjunum undanfarna áratugi. Hann var höfundur „Washington Merry-Go-Round“ sem er dálkur sem birtist í um þúsund dagblöðum í Bandaríkjunum þ.á.m. The Washington Post. Hann flutti einnig reglulega pistla í útvarpi undir sama nafni og var fréttaskýrandi í sjónvarpsþættinum „Good Morning America“. Í bókinni „Peace, War and Politics: An Eyewitness Account“ gerir hann upp litríkan feril og rifjar upp helstu atburðina sem hann hefur fjallað um eða flett ofan af og fjallar um kynni sín af forsetum Bandaríkjanna frá Eisenhower til Clintons. Málin sem hann hefur rannsakað spanna allt frá kommúnistaveiðum McCarthys til Íran-Contra hneykslisins og hefur hann oft á tíðum fengið litlar þakkir fyrir frá stjórnmálamönnum og æðstu embættismönnum Bandaríkjanna. Anderson segir meðal annars frá því að J. Edgar Hoover forstjóri Alríkislögreglunnar (FBI) hafi látið fylgjast með honum um tíma og Nixon hafi notað Leyniþjónustuna (CIA) til njósna um hann og fjölskyldu hans.

Kennedy myrtur að undirlagi Castro?

Jack Anderson er einn af þeim sem trúir ekki að Lee Harvey Oswald hafi verið einn að verki þegar að John F. Kennedy var myrtur og heldur á lofti kenningu sem stundum hefur heyrst að þar hafi Mafían verið að verki að undirlagi Castro, leiðtoga Kúbu. Hann segir að stjórn Kennedys hafi, í gegn um CIA, fengið Mafíuna til að ráða Castro af dögum en ráðbruggið hafi snúist við höndunum á Leyniþjónustunni. Anderson heldur því fram að rannsókn FBI á morðinu hafi leitt þetta í ljós en þingnefndin sem rannsakaði málið og Johnsson forseti hafi ekki treyst bandarískum almenningi fyrir sannleikanum. Þeir voru hræddir um að almenningur krefðist tafarlaust aðgerða gegn Kúbu sem hefðu í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar enda Kalda stríðið í algleymingi. Anderson færir nokkuð sannfærandi rök fyrir þessu og segist hafa heimildarmenn úr Mafíunni og Alríkislögreglunni sem staðfesta þetta.
Bókin „Peace, War and Politics“ er áhrifamikil bók sem gefur nýja sýn á bandarísk stjórnmál. Áhugamenn um bandarísk stjórnmál og sögu ættu ekki að láta þessa bók framhjá sér fara og í raun mun enginn verða svikinn af því að lesa hana.

Bókin fæst á Amazon.com